Enn skelfur jörð á Siglufirði

Siglfirðingum og íbúum í Fjallabyggð hefur ekki öllum verið svefnsamt nú í morgun og síðustu nætur því laust fyrir klukkan hálf sjö reið yfir skjálfti 4,5 að stærð samkvæmt mælum Veðurstofunnar. Skjálftinn fannst greinilega á Siglufirði.

Þetta er langstærsti skálftinn frá því á tíunda tímanum í gærkvöld, þá varð einn 3,5 að stærð samkvæmt sjálfvirku mælunum. Strax á eftir stóra skjálftanum í morgun fylgdu svo tveir minni, báðir þó tæplega 3.  Síðan hafa orðið nokkrir enn smærri.

Skjálftavirkni hefur verið nyrðra í nokkra daga, en sérfræðingar segja skjálftana í gær og fyrradag, sem margir voru þrír til fjórir að stærð, vera eftirskjálfta stærsta skjálftans, sem var 5,6. Hann reið yfir klukkan hálf tvö aðfararnótt sunnudags og vakti ótta margra á Norðurlandi.

Heimild: mbl.is