Leitinni að Grétari Guðfinnssyni á Siglufirði er haldið áfram í dag en áhersla er lögð á að leita á bátum og í fjörum. Um sex til sjö leitarhópar eru að störfum og taka á bilinu þrjátíu til fjörutíu manns þátt. Leitað var fram í myrkur í gær og leitað verður fram eftir degi í dag. Eftir það verður tekin ákvörðun um framhaldið.

Björgunarsveitar- og lögreglumenn fundu í gærmorgun úlpu, húfu, veski og síma Grétars Guðfinnssonar í fjörunni norðan við Siglufjörð.

Grétar er 45 ára gamall, 185 sentímetrar á hæð, grannvaxinn og með ljóst stutt hár. Ef einhver telur sig geta aðstoðað lögregluna við leitina á honum, er bent á að hafa samband við lögregluna á Akureyri.