Mjög lítið hefur verið reist af nýju íbúðarhúsnæði á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra síðastliðin 13 ár. Það er ekki hækkun fasteignaverðs sem plagar íbúa í þessum landshlutum, heldur fremur skortur á hentugu húsnæði.  Íbúðalánasjóður reynir nú, í samvinnu við sveitarfélögin í þessum landshlutum, að varpa ljósi á þennan vanda og hvers vegna nær ekkert nýtt íbúðarhúsnæði hafi verið byggt á sumum svæðum landsins undanfarin ár.

Sjóðurinn hefur hrundið af stað samstarfi við sveitarfélög sem felst í gerð húsnæðisáætlana. Íbúðalánasjóður verður sveitarfélögunum til ráðgjafar þegar kemur að gerð áætlananna og því hvaða upplýsingar þurfi að vera til staðar í húsnæðisáætlunum þeirra. Þannig megi bera saman áform og aðstæður milli sveitarfélaga og koma auga á stað- eða svæðisbundinn vanda. Uppbygging og endurnýjun húsnæðis er mikilvæg fyrir öll samfélög til að geta þróast. Húsnæðisáætlanir munu draga fram árlega mynd af því hver staða húsnæðismála er í hverju sveitarfélagi fyrir sig, greina framboð og eftirspurn eftir ólíkum húsnæðisformum og setja fram áætlun um hvernig sveitarfélagið ætlar að mæta húsnæðisþörf, bæði til skamms og langs tíma. Eitt af markmiðunum er að draga úr sveiflum á húsnæðismarkaði og einnig tryggja að brugðist sé við ef eitthvað hindrar að eftirspurn eftir húsnæði sé mætt, t.d. í minni sveitarfélögum.

Niðurstöður húsnæðisáætlana kynntar á Húsnæðisþingi í haust

Fjallað er um húsnæðisáætlanir sveitarfélaga í húsnæðissáttmála ríkisstjórnarinnar sem kynntur var fyrir skömmu. Í honum kemur fram að halda skuli sérstakt húsnæðisþing á haustmánuðum 2017 þar sem niðurstöður úr húsnæðisáætlunum sveitarfélaganna verði kynntar. Fyrsta slíka húsnæðisþingið er nú í undirbúningi hjá Íbúðalánasjóði og verður það haldið annað hvort í lok október eða byrjun nóvember næstkomandi.

Sigrún Ásta Magnúsdóttir, sérfræðingur hjá hagdeild Íbúðalánasjóðs: Vestfirðir og Norðurland vestra hafa nánast alveg setið eftir í uppbyggingu húsnæðis, bæði í góðærinu og eftir hrun. Starfsmenn Íbúðalánasjóðs hafa undanfarna mánuði ferðast um landið og rætt við bæjar- og sveitarstjórnarmenn og er upplifunin sú að skortur sé á húsnæði nánast sama hvar drepið er niður fæti. Í mjög mörgum bæjarfélögum treystir sér enginn til þess að byggja. Það borgar sig einfaldlega ekki. Vissulega eru margir ólíkir þættir sem liggja að baki á mismunandi stöðum. Mikilvægt er að greina þessa þætti og hvaða leiðir séu færar til að bregðast við ástandinu.“

Nánari upplýsingar veitir Sigrún Ásta Magnúsdóttir, sérfræðingur hjá hagdeild Íbúðalánasjóðs, í síma 663-3621.


Mynd: Fjöldi nýrra íbúða eftir landshlutum. Tölur frá Þjóðskrá Íslands.

Texti: Aðsent efni.