Endurtekin eignaspjöll á nýjum golfvelli

Leyningsás ses., sem stendur að gerð nýs golfvallar og útivistarsvæðis í Hólsdal á Siglufirði, hefur lagt fram kæru til lögreglu vegna síendurtekinna eignaspjalla á golfvellinum. „Þrátt fyrir að við Skarðsveg sé upplýsingaskilti um verkefnið og framkvæmdir á svæðinu, sem sett var upp til að takmarka umferð um það og brýna fyrir fólki að fara með gát, hefur fimm sinnum verið ekið yfir nýræktir og þær stórskemmdar. Í október gerðist þetta tvisvar. Því var talið nauðsynlegt að leggja fram kæru þar sem krafist er bæði refsingar og skaðabóta,“ segir  Valtýr Sigurðsson, formaður Leyningsáss.

Stefnt er að því að opna völlinn næsta sumar. Framkvæmdir eru á lokastigi og ræktunarvinna því í fullum gangi. Markmið Leyningsáss eru að koma upp glæsilegri útivistarparadís í Hólsdal. „Því er ákaflega blóðugt að samborgarar okkar gangi svona um svæðið og valdi tjóni,“ segir Valtýr.

Meðfylgjandi myndir, sem lögregla hefur fengið í hendur, ættu að auðvelda leit að viðkomandi bifreiðum. Allar ábendingar eru vel þegnar og er þeim, sem þær kunna að hafa, bent á að hafa samband við lögregluna á Siglufirði.

img_8696