Ellefu prósent sumarhúsa er á Norðurlandi

Sumarbústaðir á Íslandi voru tæplega 13 þúsund í lok ársins 2015 og hafði fjölgað um rúm 70% frá árinu 1997. Fjölgunin var mun meiri í upphafi tímabilsins en á seinustu árum. Þannig fjölgaði sumarhúsum um rúm 24% milli áranna 2000 og 2005, en um tæp 9% á árunum 2010-2015. Um það bil helmingur sumarhúsa á landinu var á Suðurlandi í árslok 2015 og um fimmtungur á Vesturlandi. Um 70% allra sumarhúsa á landinu er því á þessum tveimur svæðum. Alls eru 11% sumarhúsa á Norðurlandi.  Hagsjá Landsbankans greinir frá þessu.

Heilt yfir hefur sala sumarhúsa aukist nokkuð jafnt og þétt allt frá árinu 2008 en það ár fækkaði viðskiptum verulega. Sala sumarhúsa snarminnkaði á Suðurlandi árið 2008, en jókst svo aftur 2009. Á Vesturlandi minnkuðu viðskipti bæði 2008 og 2009 og sama má segja um Norðurland. Viðskipti hafa aukist mest á eftirsóttustu svæðunum sem eru í um klukkutíma til eins og hálfs tíma akstursfjarlægð frá Reykjavík.

Frá árinu 2010 hefur verðþróunin verið stöðug upp á við á Suðurlandi og verðhækkunin var rúm 20% frá 2010 til 2015. Verðið hækkaði mikið á Vesturlandi frá 2008 til 2011, en lækkaði þá aftur og hefur ekki náð sér á strik. Verðin voru svipuð bæði á Suður- og Vesturlandi 2015 og þau voru 2008. Verð á Norðurlandi tóku mikinn kipp frá 2009-2011 en hafa farið stöðugt lækkandi síðan þá. Verðin á Norðurlandi voru engu að síður um 40% hærri 2015 en þau voru 2008.

Séu meðalfermetraverð á öllum svæðum á landinu borin saman má sjá að þau voru hæst á Suðurlandi og töluvert þar fyrir neðan voru Norðurland og Vesturland. Verð á öðrum svæðum var töluvert lægra.

Texti frá Hagsjá Landsbankans.

2017-01-09-sumarhusamarkadur-515
Heimild: Landsbankinn.is