Ellefta tap KF í fimmtán leikjum

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótti Sindra á Hornafirði í gær í 2. deild karla. Sindri hafði unnið 3 af 4 síðustu leikjum liðanna, og vann síðasta leik 0-3 í fyrri umferðinni í deildinni. KF hefur verið að fá á sig tvö mörk að meðaltali í leik og Sindri hefur verið að skora tvö mörk að meðaltali í leik í sumar. Sindri byrjaði leikinn betur og skoruðu tvö mörk í fyrri hálfleik, og staðan var því 2-0 í hálfleik. Í þeim síðari bættu þeir við öðrum tveimur mörkum og sigruðu leikinn 4-0. Hjá KF spilaði hinn ungi Björgvin Daði Sigurbergsson sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk KF. Hann spilar einnig fyrir 2. flokk KF/Völsungs í sameiginlegu liði. Þórður Birgisson var ekki á leikskýrslu, en sóknarmaðurinn Isaac Ruben Rodriguez Ojeda var kominn úr banni. 104 áhorfendur voru á Sindravelli. Leikskýrslu má sjá á vef ksí.is. KF á 7 leiki eftir spilaða á þessu móti og getur því enn náð í 21 stig til að bjarga sér frá falli.