Elkem kaupir grisjunarvið úr Vaglaskógi næstu 10 árin
Elkem á Grundartanga hefur verið stærsti kaupandi viðar úr íslenskum skógum undanfarin ár. Verksmiðjan nýtir viðinn sem kolefnisgjafa í kísilvinnslu sinni. Í júlí 2009 samdi Elkem við Skógrækt ríkisins um kaup á þúsund tonnum af grisjunarvið til framleiðslutilraunar sem ætlað var að leiða í ljós áhrif fersks trjáviðar með berki á rekstur ofna verksmiðjunnar og á gæði framleiðslunnar. Útkoman úr tilrauninni var með ágætum og nú hefur verið gerður samningur til næstu 10 ára við Elkem. Afhenda á 1200 tonn á næsta ári en afhendingin fer svo stigvaxandi og á að ná 2400 tonnum á ári í lok samningstímabils.
Myndin hér fyrir neðan var tekin á Vöglum í Fnjóskadal föstudaginn 4. janúar 2013, en þá fór fyrsta sending þaðan í Elkem. Farmurinn var aðallega stafafura en þó eitthvað af lerki og rauðgreni. Magnið var 70 rúmmetrar staflað en 40 rúmmetrar fast og vó um 29 tonn.
Heimild: www.nls.is