Ekkert Pæjumót á Siglufirði

Pæjumótið á Siglufirði sem átti að fara fram nú um helgina hefur verið aflýst vegna ónægrar þátttöku. Þetta var tilkynnt á vef KF seint í gærkvöld. Liðum hefur farið fækkandi á mótinu síðustu árin og er svo komið núna að ekki er næg þátttaka til að halda mótið í ár.

Mótið er fyrir stúlkur í 6. og 7. flokki en samkeppnin um knattspyrnumót er orðin mikil og þurfa því félögin að ákveða hvaða mót skuli senda lið á og hvaða mótum sé sleppt.

Þegar haldið er svona stórt mót þá skiptir tímasetning og markaðssetning miklu máli til að fá sem flest lið.

Pæjumótið á Siglufirði hefur verið haldið síðan 1991 og er eitt elsta knattspyrnumót fyrir stúlkur á landinu. Mótið hefur skipað stóran sess hjá flestum knattspyrnukonum landsins sem margar hverjar tóku þátt á fjölmörgum Pæjumótum.