Ekkert minnst á fækkun sjúkrabíla í Fjallabyggð í nýrri skýrslu Landlæknis

Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) barst undirskriftalisti frá íbúum Fjallabyggðar og bókun sveitarstjórnar Fjallabyggðar varðandi þá ákvörðun HSN að leggja niður sjúkraflutningavakt í Ólafsfirði. Í lok maí 2017 staðfesti HSN ákvörðunin um að vera með tvær vaktir sjúkraflutninga á Dalvík og Fjallabyggð í stað þriggja, og væri hún tekin eftir vandlega greiningu og samráð. Fram kom í bréfi HSN að auknar kröfur um menntun og þjálfun sjúkraflutningamanna gerðu það að verkum að nauðsynlegt væri að reka færri og öflugri lið. Stofnunin taldi að með því yrði þjónustan öflugri til lengri tíma litið.

Í nýrri skýrslu Landlæknisembættis sem gerð var í júní 2017 kemur ekkert fram um þessa fækkun á vöktum sjúkraflutninga og að aðeins verði sjúkrabíll staðsettur á Siglufirði og á Dalvík.

Í skýrslunni stendur:

Heilsugæsluþjónusta Fjallabyggðar er á tveimur starfsstöðvum; sjúkrahúsinu Siglufirði og á
heilsugæslunni Hornbrekku í Ólafsfirði. Upptökusvæði heilsugæslu Fjallabyggðar er rúmlega 2.100
manns, auk þess þjónustar heilsugæslan í vaxandi mæli ferðamenn á svæðinu. Í Fjallabyggð eru þrír
fastráðnir læknar, tveir heimilislæknar og einn sérfræðingur í almennum skurðlækningum. Móttaka
lækna er á dagvinnutíma alla virka daga og er biðtími að jafnaði 0-4 dagar. Bráðaþjónusta læknis er í
boði allan sólarhringinn. Um helgar er opin bráðamóttaka læknis á vakt á Siglufirði kl. 11- 12, ekki þarf
að panta tíma, bara mæta. Hjúkrunarfræðingar sinna móttöku alla virka daga á dagvinnutíma.
Hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar heilsugæslunnar sinna heimahjúkrun alla virka daga frá kl. 08-16 og
frá kl. 08-12 um helgar og á hátíðisdögum. Góð samvinna er milli félagslegrar heimaþjónustu og
heimahjúkrunar í Fjallabyggð. 

Mönnun hjúkrunarfræðinga er ekki nægjanleg að þeirra mati og er t.d. erfitt að vera með heimahjúkrun
vegna mannfæðar. Því er stundum gripið til þess ráðs að leggja fólk inn á sjúkrahúsið til
skammtímadvalar.

Klukkutíma bið eftir sjúkraflutningi í Ólafsfirði

Nýlegt dæmi í septembermánuði sýndi það að klukkutíma tók að fá sjúkrabíl til Ólafsfjarðar fyrir eldri mann sem þjáðist af miklum bakverk. Sjúkrabíllinn á Siglufirði var í akstri til Akureyrar með annan sjúkling og að lokum var sjúkrabíll sendur frá Dalvík. Sá bíll kom klukkustund eftir að hringt var á sjúkrabíl og átti þá eftir að aka 17 kílómetra til Siglufjarðar til aðhlynningar.