Í morgun kom til hafnar á Siglufirði eitt af glæsilegri skipum sumarsins með um 240 farþega. Þetta er franska skipið Le Soleal sem var smíðað árið 2013. Skipið tekur alls 260 farþega og er með 160 manns í áhöfn. Skipið hefur stoppað nokkrum sinnum á Akureyri og Grímsey í sumar, en þetta er fyrsta og eina ferð skipsins til Siglufjarðar í ár. Að vanda heimsækja farþegar Síldarminjasafnið og fá þar leiðsögn um safnið. Skipið sigldi áleiðis til Grímseyjar í dag og verður á Akureyri á morgun. Aðeins tvö skemmtiferðaskip eiga eftir að heimsækja Siglufjörð í sumar, og eitt þeirra er Ocean Majesty, sem kemur með um 620 farþega þann 21. ágúst og er það síðasta skip sumarsins.