Einn efnilegasti leikmaður KF farinn í Val

Einn af efnilegri mönnum sem komið hafa upp í meistaraflokki Knattspyrnufélags Fjallabyggðar hefur gert félagsskipti í Val. Valur Reykjalín Þrastarson hefur spilað með meistaraflokki KF og yngri flokkum síðustu árin, en hann er uppalinn á Ólafsfirði. Samningur hans við KF rann út í lok árs 2017 og stóð alltaf til að hann færi til höfuðborgarinnar til að spila knattspyrnu. Hann fer því án greiðslu til Valsmanna. Valur lék 36 leiki með meistaraflokki KF og skoraði 4 mörk.

Valur Reykjalín segir í samtali við vefinn að hann hafi verið á reynslu hjá Val í desember 2016 og æft með meistaraflokki og 2. flokki félagsins.  Hann segir að það hafi verið vitað mál að hann myndi ekki leika áfram með KF á þessu tímabili heldur skipta yfir í lið Vals. Hann hefur þegar leikið tvo leiki með meistaraflokki Vals, og komið inná sem varamaður og einnig leikið með 2. flokki Vals á Reykjavíkurmótinu. Valur er fluttur í höfuðborgina og stundar fjarnám í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Framtíðin er björt hjá þessum unga og efnilega leikmanni.