Einherji tók þrjú stig á Ólafsfjarðarvelli

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Ungmennafélagið Einherji frá Vopnafirði mættust í kvöldleik á Ólafsfjarðarvelli í 3. deild karla í knattspyrnu í gær. Leikurinn var mikilvægur fyrir bæði lið til að blanda sér betur í toppbaráttuna. Einherji endaði í 3. sæti 3. deildar á síðast árið og 4. sæti árið 2015. Einherji fékk Grasrótarviðurkenningu KSÍ fyrir árið 2016, en þá héldu þeir úti meistraflokki karla og kvenna ásamt 4.-5. flokki karla og 5. flokki kvenna í rúmlega 500 manna samfélagi.

KF vann Reyni Sandgerði örugglega í síðustu umferð á meðan Einherji náði jafntefli við topplið Kára. Leikurinn í gærkvöld var jafn í fyrri hálfleik og náði hvorugu liðinu að skora mark, staðan 0-0 í hálfleik. Í síðari hálfleik var meiri hasar en samkvæmt leikskýrslu KSÍ þá voru þrjú rauð spjöld í lok leiks. Bozo Predojevic leikmaður KF fékk rautt spjald á 88. mínútu leiksins og einnig þjálfari KF og liðstjóri Einherja. KF lék því einum færri síðustu mínútur leiksins. Á lokamínútum leiksins fékk Einherji svo vítaspyrnu og úr henni skoraði markahæsti maður Einherja, Todor Hristov með sitt sjöunda mark í átta leikjum liðsins, og er meðal markahæstu manna deildarinnar. Þetta mark kom á 92. mínútu leiksins og fengu leikmenn KF nokkrar mínútur til að reyna jafna leikinn en það tókst ekki.

Þetta var annar tapleikur KF á heimavelli í deildinni í sumar, en liðið er áfram í 6. sæti deildarinnar með 12. stig. Næsti leikur KF er útileikur gegn Ægi í Þorlákshöfn.