Edda og Laddi skemmta nú á Norðurlandi

Leikritið Hjónabandssæla verður sýnt í næsta mánuði í Hofi á Akureyri.

Sýningar verða í menningarhúsinu Hofi dagana  18. og 19.apríl en fyrri sýningardaginn verður einnig dagsýning kl.15 ætluð eldri borgurum.

Undir styrkri stjórn Þórhildar Þorleifsdóttur leika þau Edda og Laddi nú saman á ný en þau gerðu garðinn frægan í metsölumyndinni Stella í orlofi. Nú stíga þau saman á svið í  fyrsta leikverkinu sem sett var upp í Gamla Bíó Leikhúsi þegar það var opnað síðastliðið haust.

Sýningin fjallar um þau Hinrik og Lísu, miðaldra hjón sem hafa verið gift í tuttugu og fimm ár. Ástareldurinn hefur kulnað, aukakílóin virðast komin til að vera á meðan hárin hverfa eða birtast á nýjum og óspennandi stöðum.  Kynlífið er komið á endastöð en til að fá hjólin til að snúast aftur sannfærir Lísa Hinrik um að eyða með sér helgi á hóteli til að blása nýjum glæðum í hjónabandið. En þegar Lísa fer að draga Hinrik á tálar er eitt og annað sem dregst fram í dagsljósið og um leið og fötunum fækkar hverfa hömlurnar og átökin magnast. Sprenghlægilegt og kraftmikið verk um hjón sem fara í galið ferðalag um myrkustu kima hjónabandsins til að freista þess að finna ástina á ný.
Það er mikil ánægja að fá að heimsækja Akureyringa og sýna sýninguna í þessu glæsilega húsi sem menningarhúsið Hof er og er það von aðstandenda að framhald megi verða á þessu samstarfi Gamla Bíós og Hofs.