Dýr snjómokstur á Akureyri

Vel hefur gengið að moka götur á Akureyri síðustu daga þótt uppsöfnuð snjódýpt frá því um síðustu mánaðamót hafi verið um 60 sentimetrar. Með þessu framhaldi stefnir í að samanlögð snjódýpt á Akureyri þennan vetur verði um 3-3,5 metrar. Til samanburðar var heildarsnjódýpt veturinn 2014-15 um 2,95 metrar.

Kostnaður við þessa hreinsun síðustu þrjá daga á Akureyri er áætlaður um 10-12 milljónir króna. Heildarkostnaður á árinu 2015 var um 142,6 milljónir eða heldur lægri en árið á undan þegar hann var um 151 milljón króna. Kostnaður við mokstur í desember 2015 var 46,2 milljónir. Samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 er gert ráð fyrir að um 105 milljónum króna verði varið í snjómokstur og hálkueyðingu.

Heimild: akureyri.is