Á haustdögum hófst dreifnám á Hólmavík og Blönduósi, á vegum Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Fyrirmyndin er dreifnámið sem hófst á Hvammstanga haustið 2012. Þrettán nemendur eru nú við nám á Blönduósi.

Skipulagið er þannig að nemendur taka þátt í kennslustundum gegnum fjarfundabúnað og njóta aðstoðar umsjónarmanns á staðnum. Um það bil einu sinni í mánuði býðst þeim að sækja staðlotur á Sauðárkróki og gista á heimavistinni.

Dreifnámið er samstarfsverkefni FNV og sveitarfélaganna í Austur–Húnavatnssýslu. Flestir koma frá Blönduósi í ár en vonir standa til að dreifingin verði betri á komandi árum og fleiri skili sér frá Skagaströnd og úr dreifbýlinu í sýslunni. Þetta fyrsta ár er boðið upp á helstu bóknámsáfanga sem tilheyra fyrsta námsári, en stefnan er sú að hægt verði að ljúka fyrstu tveimur árunum í heimabyggð.

Heimild: www.fnv.is