Dregur úr hagnaði í sjávarútvegi

Hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja fyrir afskriftir, fjármagnskostnað og tekjuskatt sem hlutfall af heildartekjum lækkaði milli áranna 2016 og 2017. Í fiskveiðum og -vinnslu lækkaði hlutfallið (án milliviðskipta) úr 25,4% í 21,1%, í fiskveiðum fór hlutfallið úr 24,2% í 18,2% og í fiskvinnslu úr 11,9% í 10,6%. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Hreinn hagnaður (EBT) í sjávarútvegi, samkvæmt árgreiðsluaðferð, nam 6,5% árið 2017 samanborið við 14,4% árið áður. Í fjárhæðum nam hagnaðurinn 11,8 milljörðum króna eftir að gjaldfærð hefur verið árgreiðsla að fjárhæð 26,7 milljarðar. Sé miðað við hefðbundna uppgjörsaðferð er niðurstaðan 6,8% hagnaður árið 2017 eða 12,5 milljarður, samanborið við 24% hagnað árið 2016.

Áhrifaþættir á afkomu í sjávarútvegi
Rekstrarárið 2017 gætti áhrifa verkfalls sjómanna sem hófst í desember 2016 og stóð í tæpar 10 vikur. Verð sjávarafurða á erlendum mörkuðum í íslenskum krónum lækkaði um 6,7% frá fyrra ári og verð á olíu hækkaði að meðaltali um 25% á milli ára. Gengi USD veiktist um 11,6% og gengi EUR um 9,8% á milli ára. Útflutningsverðmæti sjávarútvegs í heild dróst saman um 15,2%, og nam rúmum 197 milljörðum króna á árinu 2017. Verð á útflutningsvörum í sjávarútvegi lækkaði um 12,1% og magn útfluttra sjávarafurða dróst saman um 3,5%. Á árinu 2017 störfuðu um 7.600 manns við sjávarútveg í heild, sem er um 3,9% af vinnuafli á Íslandi. Veiðigjald útgerðarinnar lækkaði úr 6,9 milljörðum króna fiskveiðiárið 2015/2016, í 4,6 milljarða króna fiskveiðiárið 2016/2017.

Afkoma smábáta versnaði árið 2017
Alls voru 837 smábátar að veiðum og öfluðu þeir tæplega 22 þúsunda tonna, að verðmæti rúmlega 4,2 milljarða króna árið 2017. Sem hlutfall af tekjum var EBITDA smábáta 13,3% árið 2017, borið saman við 13,8% árið 2016. Af þessum 837 smábátum var 521 bátur við strandveiðar á árinu. Afli þeirra var um 9.800 tonn og aflaverðmætið tæplega 1,9 milljarðar króna. EBITDA strandveiðanna árið 2017 var 13,9% samanborið við 15,6% árið 2016 og EBITDA annarra báta undir 10 tonnum á almennum veiðum 12,8% samanborið við 11,3% árið 2016.

Eigið fé sjávarútvegs rúmir 276 milljarðar
Samkvæmt efnahagsreikningi voru heildareignir sjávarútvegsins rúmir 660 milljarðar króna í árslok 2017, heildarskuldir rúmir 384 milljarðar króna (hækkun um 6,9%) og eigið fé tæpir 276 milljarðar króna. Verðmæti heildareigna hækkaði um 6,2% frá 2016 og fjárfestingar í varanlegum eignum hækkuðu um 10%. Eiginfjárhlutfallið var 41,8% en var 42,2% í árslok 2016. Eins og fram kemur á myndinni hér fyrir neðan hefur eigið fé í sjávarútvegi vaxið hratt síðustu ár, eða úr 29 milljörðum króna árið 2010 í 276 milljarða króna árið 2017.

 

Í sjávarútvegi alls er litið framhjá viðskiptum milli veiða og vinnslu með hráefni, og tekjur metnar miðað við markaðsverðmæti.Heimild og mynd: Hagstofa.is.