Dramatískur sigur á Sauðárkróksvelli

Tindastóll og Afturelding mættust í dag á Sauðárkróki í 2. deild karla í knattspyrnu. Leikurinn var í 13. umferð Íslandsmótsins, en Afturelding var í 2. sæti deildarinnar og Tindastóll næstneðsta sæti. Búist var við erfiðum leik fyrir Stólana en Afturelding hafði aðeins tapað einum leik í deildinni fyrir þennan leik. Það voru gestirnir sem tóku forystu í leiknum á 20. mínútu, en markið var sjálfsmark Sigurðar Friðrikssonar leikmanns Tindastóls. Arnar Ólafsson kemur Stólunum í 1-1 rétt fyrir hálfleik. Á upphafsmínútum síðari hálfleiks og þá skorar Afturelding líka sjálfsmark sem var skráð á Fannar Kolbeinsson. Staðan 2-1 og nóg eftir. Á 89. mínútu skora gestirnir aftur, og staðan 2-2 þegar nokkrar mínútur voru eftir en þá kemur mjög dramatískur kafli í leiknum, þar sem tveir leikmenn Tindastóls og þjálfari Aftureldingar eru reknir af velli með rautt spjald.  Á 93. mínútu þá skora Tindastólsmenn sigurmark leiksins og náðu strákarnir sér í þrjú dýrmæt stig í botnbaráttunni. Lokatölur 3-2 fyrir Stólana sem eru komnir með 10 stig og aðeins einu stigi frá næstu liðum fyrir ofan.