Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti sameiginlegu liði Hattar og Hugins í knattspyrnuhúsinu Boganum á Akureyri í kvöld, en liðin eru saman í riðli í Lengjubikarnum.  Höttur/Huginn voru þegar búnir að leika einn leik á mótinu en þeir unnu Fjarðarbyggð/Leikni 1-3 í fyrst leik sínum, en á sama tíma var leik KF og Völsungs frestað. Þetta var því fyrsti leikur KF í Lengjubikarnum í ár.

KF hafði bætt við sig nokkrum nýjum strákum sem voru flestir á varamannabekknum í dag. Höttur/Huginn vann 3. deildina sl. sumar og leika með KF í 2. deildinni nú í sumar.

Austfirðingarnir byrjuðu leikinn vel og komust yfir strax á 2. mínútu leiksins. Ljubomir Delic jafnaði leikinn fyrir KF í uppbótartíma fyrri hálfleiks og var staðan því 1-1 þegar leikmenn gengu til búningsklefanna.

KF gerði þrjár skiptingar í hálfeik og komu ungir strákar inná sem voru nýlega búnir að skipta yfir í KF. Höttur/Huginn gerði tvær skiptingar og eina skömmu fyrir hálfleik.

Eftir tæpar ellefu mínútur í síðari hálfleik voru Austfirðingar aftur búnir að skora, en nú úr vítaspyrnu var staðan orðin 1-2. Höttur/Huginn gerði svo tvöfalda skiptingu tæpum 10 mínútum eftir markið.

KF gerði aðra þrefalda skiptingu á 72. mínútu þegar þeir freistuðu þess að jafna leikinn. Það var komið fram í uppbótartíma þegar Jón Árni Sigurðsson jafnaði leikinn fyrir KF og héldu nú margir að stigið væri í höfn í stöðunni 2-2. Austfirðingarnir voru ekki á sama máli og skoruðu tveimur mínútum síðar, eða á 95. mínútu úr annari vítaspyrnu og var það sigurmarkið í leiknum. Lokatölur 2-3 fyrir Hött/Huginn og mikil dramatík á síðustu mínútum leiksins.

KF er því án stiga eftir fyrsta leikinn í Lengjubikarnum, en margir ungir og nýir leikmenn fengu dýrmætar mínútur til að sýna hvað í þeim býr.

KF leikur næst við Völsung, sunnudaginn 6. mars.

Hákon Leó var fyrirliði liðsins í dag.