Dramatík á Dalvíkurvelli þegar KF var í heimsókn – Umfjöllun í boði Siglufjarðar apóteks

Umfjöllun um leiki KF í vor og sumar verða í boði Siglufjarðar apóteks sem eru aðalstyrktaraðli. Stuðningurinn gerir það  mögulegt að hafa veglegar lýsingar með öllum Lengjubikar og deildar- og bikarleikjum KF í ár.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Dalvík/Reynir mættust á Dalvíkurvelli í dag í Lengjubikarnum. Dalvík hafði leikið einn leik í riðlinum og sótt sigur en KF hafði leikið tvo leiki án þess að sigra. Þessi lið gjörþekkja hvort annað og er alltaf hart barist þegar þau hittast, og þessi leikur var engin undantekning.

Bæði lið stilltu upp sterkum byrjunarliðum og léku KF menn í hvítum treyjum og Dalvík í sínum bláu.

Heimamenn tóku sér tíma í allar aðgerðir og reyndu að byggja upp sóknir beint frá markmanni og spila frá aftasta manni. KF notaði skyndisóknir og reyndu langar sendingar þess á milli. Hart var barist um hvern bolta og lítið gefið eftir.

Dalvíkingar fengu vítaspyrnu þegar brotið var á leikmanni þeirra innan teigs KF og skoraði Aron Máni Sverrisson örugglega úr vítinu. Staðan orðin 1-0 á 18. mínútu í blíðunni á Dalvík. Tæpum 20 mínútum síðar braut Borja Laguna leikmaður Dalvíkur fólskulega af sér og fékk beint rautt spjald. Dalvík því einum leikmanni færri þegar aðeins 36 mínútur voru liðnar.

Dalvík leiddi í hálfleik 1-0 og gerði þjálfari þeirra eina breytingu í hálfleik en liðið skipti um markvörð. KF gekk lítið að nýta færin en Dalvík þétti varnarleikinn og tóku sér tíma í allar aðgerðir. Þjálfari KF gerði þrefalda skiptingu á 62. mínútu og sendi ferska menn á völlinn og skömmu síðar skipti Dalvík tveimur mönnum inná hjá sér.

Mikil harka færðist í leikinn seinni hluta síðari hálfleiks og þurfti dómarinn að nota gula spjaldið sjö sinnum. Allt leit út fyrir að heimamenn næðu að halda út en þá fékk KF vítaspyrnu þegar brotið var á leikmanni þeirra innan teigs heimamanna. KF náði ekki að nýta tækifærið og varði markvörður Dalvíkur spyrnuna sem var ekki nógu fastur bolti og í þægilegri hæð fyrir markmanninn sem valdi rétt horn. Eftir vítið fékk leikmaður Dalvíkur sitt annað gula spjald og var því liðið tveimur leikmönnum færri síðustu mínúturnar. KF náði ekki að nýta sér liðsmuninn í þessum leik og vann Dalvík/Reynir mikinn baráttu sigur og hafa sigrað fyrstu tvo leiki sína í riðlinum en KF hefur tapað þremur leikjum sínum.