Landsbankinn hefur tekið tilboði fjárfestingafélagsins Kaldbaks í Landsbankahúsið við Ráðhústorg á Akureyri sem auglýst var til sölu fyrir um mánuði síðan. Sjö tilboð bárust og var tilboð Kaldbaks hæst. Kaupverðið er 685 milljónir króna eða rúmlega 285 þús á hvern fermeter. Húsið er við Strandgötu 1 og var auglýst til sölu í byrjun októbers. Húsið er kjallari, þrjár hæðir og ris. Útibú Landsbankans mun vera áfram í húsinu , en bankinn mun leigja 1. hæðina auk rýmis í kjallara þar til annað verður ákveðið.
Landsbankahúsið er um 2.300 fermetrar að stærð og setur mikinn og fallegan svip á torgið. Húsið var tekið í notkun árið 1954. Fyrstu tillöguuppdrætti að húsinu gerði Guðjón Samúelsson en að honum látnum tók Bárður Ísleifsson við og gerði hann eftir það alla uppdrætti.
Þegar húsið var tekið í notkun árið 1954 voru fjárhirslur og geymsluhólf í kjallara. Á fyrstu hæð voru afgreiðslusalur og skrifstofur bankans. Á annarri og þriðju hæð voru skrifstofur Akureyrarkaupstaðar og fundarsalur bæjarstjórnar var í risinu og má því segja að á þessum árum hafi verið ráðhús við Ráðhústorg. Árið 1975 var viðbygging við húsið tekin í notkun og stækkaði afgreiðslusalurinn þá um helming.
Landsbanki Íslands tók til starfa á Akureyri árið 1902. Fyrstu tvö árin var bankinn til húsa í suðurhluta hússins að Hafnarstræti 2. Árið 1904 flutti bankinn í Hafnarstræti 107, við Ráðhústorg. Þar var bankinn til ársins 1931 þegar hann flutti yfir torgið á neðri hæð hússins Ráðhústorg 7a þar sem hann var til ársins 1954.
Kaldbakur er dótturfélags Samherja.
Frá þessu var fyrst greint á vef Samherja.
Mynd með fréttinni er frá heimasíðu Landsbankans.