Davíðshús á Akureyri

Bókmenntaunnendum býðst einstakt tækifæri miðvikudagskvöldið 6. febrúar til að heimsækja Davíðshús á Akureyri, heimili Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi, og upplifa það á alveg nýjan hátt. Ferðast verður um húsið í för með leikurum Leikfélags Akureyrar, lesin verða nokkur af helstu ljóðum skáldsins, og leiklesin verða atriði úr nýju leikriti eftir Árna Kristjánsson, Sálin hans Davíðs, en verkið fjallar um Davíð Stefánsson á nýstárlegan máta.

Í leikritinu er Davíð staddur í lífi eftir dauðann með vinum sínum, Árna Kristjánssyni og Páli Ísólfssyni. Á hann að stíga hið mikilvæga skref inn fyrir gullna hliðið og setjast á skáldabekk með öðrum þjóðskáldum? Til að komast inn fyrir gullna hliðið þarf Davíð að gera upp fortíð sína en það getur reynst erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Leikendur eru Aðalbjörg Árnadóttir, Anna Gunndís Guðmundsdóttir, Einar Aðalsteinsson, Hannes Óli Ágústsson og Tryggvi Gunnarsson.

Dagskráin er flutt 6. febrúar kl. 20.00 og 21.00 í Davíðshúsi við Bjarkarstíg 6 á Akureyri.

Takmarkaður fjöldi – miðapantanir hjá Leikfélagi Akureyrar. Aðgangur 1.000 kr.

Heimild: Akureyri.is