Danssýningin Fubar sýnd á Sauðárkróki og viðtal danshöfund

Danssýningin Fubar verður sýnd á Sauðárkróki fimmtudaginn 1. nóvember kl. 18:00 í Félagsheimilinu Bifröst á Sauðárkróki. Við fengum danshöfundinn og dansarann Siggu Soffíu í viðtal hér á vefnum.
Sigríður Soffía og Jónas Sen eru ný komin heim fra Grænlandi en þau sýndu verkið FUBAR í Nuuk í þar síðustu viku.  Verkið var sýnt á vegum Outervision danshátíðarinnar í Nuuk en tveir íslenskir hópar sýna á festivalinu. Verk eftir tvo íslenska danshöfunda voru sýnd,  FUBAR eftir Sigríði Soffíu Níelsdóttur og Cloak eftir Sögu Sigurðardóttur.
Kennir í skólum fyrir norðan
FUBAR fer norður á vegum verkefnisins List fyrir alla. List fyrir alla er ætlað að velja og miðla listviðburðum til barna og ungmenna um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Hér má lesa meira um List fyrir alla https://listfyriralla.is/um-verkefnid/
Sigga Soffía mun kenna danssmiðjur í Skólanum í Varmahlíð, Grunnskóla Austan Vatna, Hofsós og Hólum og á Sauðárkrók þessari viku en List fyrir alla býður 8.-10. bekk grunnskólanna svo að sjá danssýninguna FUBAR í lok vikunnar.
Tvær sýningar verða því á verkinu, einkasýning fyrir nemendur skólanna og opin sýning fyrir almenning þann 1. nóvember kl. 18:00 í félagsheimilinu Bifröst á Sauðárkróki.
Sigga Soffía kenndi einnig smiðjur á vegum List fyrir alla á Norðausturlandi síðasta vetur þar sem hún heimsótti marga skóla og sýndi FUBAR á félagheimilinu Hnitbjörg á Raufarhöfn og Ýdölum við Hafralækjarskóla.
Dansandi tónlistargagnrýnandi
Auk Siggu Soffíu dansara kemur Jónas Sen tónskáld og gagnrýnandi fram í verkinu sem dansari. Hann opnar verkið FUBAR með tai chi líkum dansi auk þess að semja tónlistina og spila á flygil í verkinu.
————————————————

Viðtal við Siggu Soffíu

Hvað getur þú sagt Skagfirðingum um sýninguna Fubar?

Þetta var 27 sýninginá FUBAR en verkið hefur verið sýnt víða um ísland á síðustu 2 árum en næstu sýningar eru áætlaðar á Sauðárkróki í lok oktober og Vestmannaeyjum á nýju ári. Verkið hlaut 2 grímutilnefningar 2016 þegar verkið var frumsýnt en það hefur ferðast um landsbyggðina á síðustu árum. Framundan eru áframhaldandi sýningar hérlendis og erlendis.

Hvað koma margir að sýningunni Fubar?

Listræna teymi sýningarinnar samanstendur af Sigríði Soffíu listrænn stjórnandi og flytur einnig verkið ásamt Jónasi Sen sem semur tónlistina í verkinu auk þess að spila á flygil og raftónlist. Leikmynd verksins er eftir myndlistarmanninn Helga Má og búningur eftir Hildi Yeoman.
Hvað munu grunnskólabörnin í Skagafirði læra í “list fyrir alla” ?
Ég mun bjóða krökkunum uppá vinnustofu í dansi þar fá þau að kynnast grunnatriðum í samtímadansi og nasaþef af því hvernig það er að starfa sem listamaður. Það er mikið af virkilega hæfileikaríkum dönsurum og íþróttamönnum útá landsbyggðinni sem hafa takmarkað aðgegi að t.d. danstímum. Ég er þvi bæði að kynna og opna fyrir möguleika þeirra um að starfsvettvang í listum. Margir krakkar hafa nefnt það við mig að þeim langi að dansa en ekki sé boðið uppá kennslu í þeirra bæjarfélagi. Í þeim tilfellum hef ég sýnt þeim leiðir hvernig þau geti ræktað hæfileikana með hjálp internetsins og hvað þeirra ástríða og áhugi getur komið þeim langt. Þau fá að prófa mismunandi gerðir af dansi en ég sníð vinnustofurnar að þeirra áhugasviði.
Nánar um List fyrir alla:
List fyrir alla er ætlað að velja og miðla listviðburðum til barna og ungmenna um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag.
Stefnt er að því að á tíu ára grunnskólagöngu veiti verkefnið börnum góða yfirsýn yfir vettvang lista. Nemendur kynnast fjölbreytni listanna, íslenskum menningararfi og list frá ólíkum menningarheimum.
Á þennan hátt er menningarframboð aukið enn frekar og stuðlað að samstarfi listamanna og listahópa með börnum og ungmennum landsins þar sem gæði og fagmennska eru höfð að leiðarljósi.
Listviðburðirnir eru  unnir af fagfólki og bestu mögulegu gæðum. Leitast er við að gera allar listgreinar sýnilegar innan verkefnisins eins og kostur er.
List fyrir alla er  á forræði mennta- og menningarmálaráðuneytis
Hvað hefur þú starfað lengi sem dansari og danshöfundur ?
Ég hef starfað sem danshöfundur og dansari í 10 ár. Útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands með BA gráðu í Samtímadansi og var fyrsti útskriftarárgangurinn á íslandi. Áður fyrr hafa allir dansarar þurft að flytja af landi brott til að fá framhaldsmenntun í dansi. Ég fór í skiptinám í sirkusskólan ESAQ í Brussel og starfaði í framhaldi mikið í Brussel og Frakklandi fyrstu 5 árin eftir útskrift. 
Hafa tekjur af dansi dugað til að framfleyta þér eða hefur þú starfað við aðra atvinnu meðfram listinni?
Já, ég starfa einungis við dans. En dans/hreyfing tekur á sig margar ólíkar myndir allt frá því að gera flugeldasýningar í að semja dans á fljúgandi mann í fallhífastökkshermi fyrir erlent fyrirtæki. Ég hef unnið sem sjálfstætt starfandi dansari frá útskrift og dansaði með mismunandi flokkum. Mest með Shalala flokki Ernu Ómarsdóttur sem var þá staðsett í Brussel.  Ég hef samið dansverk fyrir Íslenska dansflokkinn, samdi verk fyrir Pólskann dansflokk, dansaði og söng í Óperu í Frakklandi.  Vinn með hreyfingu í öllum sínum formum. Ég gerði dansverk fyrir flugelda (flugeldasýningar menningarnætur frá 2013-2015)  og hef mikið unnið með flugeldasýningar síðustu ár og gerði m.a. opnunarflugeldasýningu La Mercé hátíðarinnar í Barcelona í fyrra. 
Hvernig voru móttökur í Grænlandi með sýninguna Fubar?
Þær voru frábærar, ótrúlega skemmtilegt að sýna í samfélagi sem er svona ólíkt á margan hátt en líkt á annan. Grænlendingar eru opnir fyrir sterkum kvenímyndum og eru með dans sem heitir Greenaland mask dance sem gengur útá mjög grótesk performance. Mér fannst hlutar úr sýningunni minni vera í anda þessarar tækni (sem er tilviljun því ég hafði ekki kynnt mér þessa danstækni áður) en veran í Nuuk dró fram aðra þætti í sýningunni sem urðu fyrirferðarmeiri  og ýktari fyrir vikið. Það þótti mér skemmtilegt. 
Ætlar þú að skoða eitthvað sérstakt í Skagafirði í þessari heimsókn?
Stóra planið er að drekka kaffi með ættingjum mínum á Sauðárkróki og svo er ég að vonast til að komast í sjósund á einhverjum góðum stað.
Langamma og afi, Jónanna og Jósafatbjuggu á Hólavegi 14, og áttu þar 4 börn. Braga, Guðrúnu, Jón og Ingibjörgu og hún Gunna Jós er amma mín.