Í vor tók Dalvíkurskóli þá ákvörðun um að skólinn yrði símalaus skóli frá haustinu 2023.  Óskað er eftir góðu samstarfi foreldra og eiga símarnir að vera geymdir heima á skólatíma.

Nánar má lesa í reglugerð frá skólanum:

Ástæða þessarar ákvörðunar er að stóru leyti líðan ungmenna okkar, áreitið frá símanum er mjög mikið og hafa samfélagsmiðlar mikil áhrif á sjálfsmynd, svefn og líðan ungmenna sem kemur niður á einbeitingu og námsframvindu í skólanum. Skólinn er að verða það vel tækjum búinn að nemendur þurfi ekki að nota símann sinn sem vinnutæki og erum við enn að bæta í tækjakost skólans. Við ræddum þetta á nemendaráðsfundi með nemendum og svo aftur í skólaráði þar sem nemendur sögðu að það yrði mjög gott að fá smá frí frá símanum meðan þau væru í skólanum. Því þó að nemendur ætli sér ekki að vera í símanum þá um leið og þau finna titring frá tækinu þá verði þau friðlaus og hugurinn fari í símann.

Hér eru nokkrir punktar sem við sjáum í auknum mæli hjá ungmennum okkar og samsvarar niðurstöðu rannsókna sem við höfum lesið varðandi skjánotkun barna.

Skjánotkun barna

  • Mikil notkun getur haft áhrif á andlega sem og líkamlega heilsu barna.
  • Notkun samfélagsmiðla skilar sér oft í miklum kvíða og niðurrifi, ungmenni bera sig saman við aðra á samfélagsmiðlum og upplifa sig minna virði sem hefur áhrif á sjálfstraust og sjálfsmynd.
  •  Ungmenni verða brothættari, taka síður áhættu af ótta við að mistakast, fá umtal um sig og vera gagnrýnd.
  • Neteinelti: Það er oft auðvelt að segja allskonar ljóta hluti í skjóli símans, ógna eða senda óviðeigandi myndir sem getur haft langvarandi áhrif á líðan sem getur fylgt einstaklingum til fullorðinsára.
  • Notkun samfélagsmiðla hefur aukist samhliða verri andlegri líðan ungmenna.

Frá og með haustinu 2023 verða símar því ekki leyfðir í skólanum. Ef nemendur þurfa að koma með símann í skólann þá verður hægt að geyma hann á skrifstofu skólans þar til skóla líkur.

Ef foreldrar þurfa að ná á börnunum sínum þá er alltaf hægt að hafa samband við ritara skólans og við komum skilaboðum áleiðis. Nemendur geta einnig fengið að hringja ef þeir þurfa.

Nemendur geta þó enn hlustað á tónlist þegar það er í boði í gegnum spotify aðganginn sinn.

Brot á símareglum:

Ef sími nemenda er sjáanlegur í skólanum, þarf nemandi að láta símann af hendi og fara með hann á skrifstofu skólans og foreldrar þurfa að sækja símann á skrifstofu milli kl: 8:00 – 16:00 á virkum dögum.

Það er von okkar að eiga gott samstarf við foreldra og nemendur um að gera Dalvíkurskóla að símalausum skóla með velferð nemenda að leiðarljósi.