Dalvíkurbyggð 20 ára í dag

Í dag, fimmtudaginn 7. júní, eru 20 ár liðin frá því að Dalvíkurbyggð varð til sem eitt sveitarfélag en þann dag árið 1998 sameinuðust Dalvík, Árskógshreppur og Svarfaðardalshreppur í eitt sveitarfélag.

Fyrsti sveitarstjóri hins nýja sveitarfélags var Rögnvaldur Friðbjörnsson (1998-2001). Á eftir honum komu þau Guðrún Pálína Jóhannsdóttir (2002), Valdimar Bragason (2002-2006), Svanfríður Jónasdóttir (2006-2014) og Bjarni Th. Bjarnason (2014-2018).

Fyrstu sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags skipuðu þau: Katrín Sigurjónsdóttir, Kristján Ólafsson, Sveinn Elías Jónsson og Gunnhildur Gylfadóttir fyrir B-lista, Kristján Hjartarson og Ingileif Ástvaldsdóttir fyrir S-lista og Svanhildur Árnadóttir, Kristján Snorrason og Jónas M. Pétursson fyrir D-lista.

Á þessum 20 árum hefur ýmislegt áunnist, meðal annars má nefna stækkun og viðbyggingu Árskógarskóla, Dalvíkurskóla og leikskólans Krílakots. Byggingu á íþróttahúsi á Dalvík, stækkun á dreifikerfi Hitaveitu Dalvíkur þar sem að Árskógsströnd og stærstur hluti Svarfaðardals hefur verið tengdur veitunni, framkvæmdir við fráveitu þar sem útræsi hafa verið sameinuð þannig að eitt útræsi er á Dalvík og Hauganesi og tvö á Árskógssandi og hafnarframkvæmdir í öllum höfnum sveitarfélagsins. Þá hefur móttaka afla hjá hafnasjóði Dalvíkurbyggðar farið yfir 20.000 tonn í lok tímabilsins sem er stór áfangi. Skammtímavistun fyrir fatlað fólk hefur verið komið upp á Dalvík og fyrir dyrum stendur bygging íbúða fyrir fatlað fólk. Unnin hefur verið metnaðarfull stefnumótun hjá sveitarfélaginu svo sem mannréttindastefna, skólastefna, lýðræðisstefna, menningarstefna og fleira og fleira að ógleymdu aðalskipulagi sveitarfélagsins.

Íbúafjöldi í sveitarfélaginu 1. desember 1998 var samtals 2064 en er í dag 7. júní 2018 samtals 1908 og hefur íbúum sveitarfélagsins því fækkað um 7,5%. Þess má þó geta að árið 2018 fjölgar íbúum um 77 manns á milli ára.

Sameiningarferlið

Tilurð sameiningarinnar voru þau að í apríl 1995 er haldinn sameiginlegur fundur sveitarstjórnarmanna frá Ólafsfirði, Dalvík, Svarfaðardalshreppi, Árskógshreppi og Hrísey þar sem meðal annars er rætt um samstarf þessara sveitarfélaga. Seinna sama ár samþykkir bæjarstjórn Dalvíkur að fela bæjarstjóra sínum að leita eftir því að skipuð verði sameiginleg nefnd þessara sveitarfélaga sem fari yfir og meti möguleika á frekara samstarfi og/eða sameiningu þeirra. Niðurstaða þeirra umleitana er sú að í ágúst 1996 er skipuð sameiginleg nefnd allra þessara sveitarstjórna, auk Siglufjarðarkaupstaðar. Nefndin fékk fyrirtækið Rekstur og ráðgjöf ehf. í Reykjavík til að athuga hagkvæmni sameiningar eða samstarfs þessara sveitarfélaga. Leggur fyrirtækið til sameiningar í áföngum, fyrst Dalvík, Svarfaðardal og Árskógsströnd, síðan Hrísey, þá Ólafsfjörð og að lokum Siglufjörð. Tekur þó fram að sameining við Siglufjörð miðist við að samgöngur verði bættar með jarðgöngum. Með þeim fyrirvara dettur Siglufjarðarkaupstaður út úr umræðum um sameiningu og eftir standa Dalvík, Svarfaðardalshreppur, Árskógshreppur, Hrísey og Ólafsfjörður.

Viðræður halda áfram en í janúar 1997 er ljóst að Ólafsfirðingar draga sig út úr sameiningarviðræðunum. Í framhaldi af því ákveða hin sveitarfélögin fjögur að halda viðræðum áfram og vonast til að sjá nýtt sveitarfélag í apríl/maí sama ár.

29. október 1997 er haldinn fyrsti samráðsfundur sveitarstjórnanna þriggja eftir að Hríseyingar sögðu sig frá,  sameiningin var samþykkt og var fundarefnið aðallega fyrirliggjandi samvinnuferli og hvaða verkefni eigi að vera í forgangi. Samþykkt er að stofna sérstaka framkvæmdanefnd til að undirbúa og fylgja eftir verkefnum. Þann 7. júní 1998 er svo gildistaka sameiningarinnar endanlega staðfest af ráðuneyti og telst það því vera afmælisdagur sveitarfélagsins.

Texti: dalvik.is