Dalvíkingar komnir upp í 2. deild

Dalvík/Reynir tók á móti Knattspyrnufélaginu Hlíðarenda (KH) í gær á Dalvíkurvelli í næstsíðustu umferð Íslandsmótsins í 3. deild karla. Sigur eða jafntefli í þessum leik hefði þýtt öruggt sæti fyrir Dalvík/Reyni í 2. deild að ári með hagstæðum úrslitum í öðrum leikjum. Dalvík/Reynir vann fyrri leik liðanna í sumar 0-1 á heimavelli KH. KH hefði með sigri í þessum leik getað blandað sér í baráttuna um 2. sæti deildarinnar, og því var mikið í húfi fyrir bæði lið. Dalvíkingar höfðu ekki landað sigri í síðustu leikjum og var því mikilvægt að ná í góð úrslit í þessum leik.

Dalvíkingar byrjuðu vel og skoruðu á 16. mínútu með marki frá Þorra Mar, hans fjórða mark í 17 deildarleikjum í sumar. Staðan var 1-0 í hálfleik fyrir heimamenn. Undir lok síðari hálfleiks þá jafna gestirnir metin með marki á 87. mínútu og var þar að verki Pétur Þorkelsson, 18 ára, með sitt fyrsta mark fyrir KH í tveimur leikjum í sumar. Lokatölur í þessum leik urðu 1-1 og var það nóg til þess að Dalvík/Reynir tryggi sér sæti í 2. deild á næsta ári.

Næsti leikur er gegn KF á Ólafsfjarðavelli og þarf Dalvík/Reynir jafntefli eða sigur til að tryggja sér 1. sæti deildarinnar. Leikurinn fer fram laugardaginn 15. september kl. 14:00.