Dalvík/Reynir mætti liði Elliða í dag í 20. umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu. Dalvík hafði tapað fyrri leik liðanna 5-2 í sumar og einnig á síðasta tímabili á heimavelli Elliða. Heimamenn þurftu á sigri að halda til að halda sér í baráttunni um sæti í 2. deild að ári. Elliði er rétt fyrir ofan fallsæti og má lítið út af bregða hjá þeim svo liðið haldi sér uppi í deildinni.

Gestirnir byrjuðu vel og skoruðu strax á 12. mínútu. Heimamenn voru þó fljótir að ná áttum og skoraði Borja Laguna sex mínútum síðar og jafnaði leikinn í 1-1 á 18. mínútu.

Malakai kom Dalvík í 2-1 á 28. mínútu og var staðan þannig í hálfleik.

Þjálfari gestanna fékk rautt spjald á 58. mínútu fyrir mótmæli. Það leit allt út fyrir að þetta yrðu lokatölur þegar komið var fram í uppbótartíma, en þá byrjaði fjörið aftur. Heimamenn komust í 3-1 á 92. mínútu þegar Viktor Daði Sævaldsson skoraði. Elliði minnkaði muninn á 96. mínútu og breytti stöðunni í 3-2, en það kom of seint og heimamenn unnu góðan sigur 3-2.

Dalvík/Reynir hafa nú 2ja stiga forskot á Sindra og 4ra stiga forskot á KFG sem er í 3. sætinu. Þessi þrjú lið berjast um tvö laus sæti í 2. deild karla að ári þegar tvær umferðir eru eftir.

Dalvík/Reynir á eftir útileik gegn KFG og heimaleik gegn Augnabliki í lokaumferðinni.