Dalvík/Reynir mætti KH á Dalvíkurvelli í dag í 1. umferð Íslandsmótsins í 3. deild karla. KH kom upp úr 4. deildinni síðasta sumar og fóru taplausir í gegnum riðilinn sinn. KH stendur fyrir Knattspyrnufélagið Hlíðarendi og er tengt Valsliðinu í Reykjavík.

Dalvík/Reynir endaði í 7. sæti í 3. deildinni í fyrra og stefna að því að gera betur í ár.

Heimamenn byrjuðu leikinn af krafti og skoraði Þröstur Jónasson strax á 3. mínútu og var staðan orðin 1-0. Matthew Woo Ling skoraði á 12. mínútu í sínum fyrsta leik fyrir félagið og var staðan orðin 2-0. Vilhelm Ottósson skoraði á 26. mínútu og kom D/R í góða stöðu, 3-0.

Borja Laguna bætti við fjórða markinu skömmu fyrir leikhlé og fóru heimamenn með góða stöðu inni í klefann.

Gestirnir í KH gerðu tvær skiptingar strax í hálfleik og eina aðra á 56. mínútu. Ekkert gekk hjá KH að koma inn marki og gátu heimamenn leyft sér að nýta sér allar sínar skiptingar á síðustu 10 mínútum leiksins.

Dalvík/Reynir sigraði leikinn 4-0 og byrja mótið af krafti á heimavelli.