Dalvík tapaði gegn Einherja manni færri

Dalvík/Reynir heimsótti Einherja á Vopnafirði í gær í 3. deild karla. Leikurinn var í 6. umferð Íslandsmótsins, en Einherji var aðeins með 3 stig eftir fyrstu 5 leikina og nálægt fallbaráttunni en Dalvík hafði náð sér í 8 stig og gátu fært sig nær toppbaráttunni.

Dalvík byrjaði leikinn vel og voru komnir yfir strax á 3. mínútu með marki frá Jóni Heiðari Magnússyni. Á 18. mínútu fékk markmaður heimamanna rautt spjald og tók útileikmaður þeirra hanskana þar sem enginn varamarkmaður var á bekknum.

Einherji náði að jafna leikinn einum manni færri á 36. mínútu þegar Freymar Ómarsson skoraði. Staðan var því 1-1 í hálfleik.

Dalvík gerði tvöfalda skiptingu á 56. mínútu þegar Viktor Daði og Gunnlaugur Rafn voru sendir inná, en útaf fóru Ottó Björn og Kristján Freyr.

Einherji náði svo öðru marki á 63. mínútu þegar Freymar Ómarsson skoraði sitt annað mark og kom heimamönnum í 2-1.

Dalvík gerði aðra tvöfalda skiptingu á 74. mínutu þegar Jóhann Örn og Elías Franklin komu inná fyrir Núma Kárason og Kristinn Þór.

Heimamenn héldu út og unnu baráttusigur 2-1 á Vopnafjarðarvelli og náðu sér í dýrmæt þrjú stig.