Dalvík tapaði fyrir KFG á útivelli

Dalvík/Reynir og KFG mættust í Garðabænum í dag í 3. deild karla í knattspyrnu. Dalvík/Reynir var að leika sinn 8 leik en KFG sinn sjöunda. Liðin mættust síðast í 2. deildinni árið 2019 og unnu liðin þá bæði sinn heimaleik. Liðin voru í 5.-6. sæti með 11 stig fyrir þennan leik og var því búist við jöfnum leik.

Hvorugu liðinu tókst að skora í fyrri hálfleik og var staðan því 0-0 þegar dómarinn flautaði til hálfleiks.

KFG gerði tvöfalda skiptingu á 57. mínútu og D/R gerði eina skiptingu á sama tíma þegar Borja Laguna kom inná fyrir Gunnar Örvar.

Skiptingin hjá KFG var fljót að skila sér en varamaðurinn Jóhann Jóhannsson skoraði á 63. mínútu og kom heimamönnum í 1-0. D/R setti Núma Kára inná strax eftir markið fyrir Viktor Daða og KFG gerði einnig tvær skiptingar á næstu 10 mínútum. D/R setti svo Jón Heiðar inná fyrir Gunnlaug Bjarnar á 77. mínútu og KFG gerði sína fimmtu skiptingu mínútu síðar. Jöfnunarmarkið kom svo á 81. mínútu þegar Kristinn Þór Rósbergsson skoraði fyrir Dalvík og jafnaði leikinn þegar rúmar 10 mínútur voru eftir. Staðan 1-1 og allt í járnum síðustu mínúturnar.

Tæpum fimm mínútum síðar skoruðu heimamenn aftur og komust yfir 2-1 og aftur var það varamaður þeirra, Birgir Helgason sem skoraði.

Þrátt fyrir langan uppbótartíma þá tókst D/R ekki að jafna metin aftur og unnu heimamenn mikilvægan 2-1 sigur í þessum leik.

Dalvík er í 6. sæti eftir þennan leik með þrjá sigra, tvö jafntefli og þrjú töp.

Dalvík/Reynir leikur næst við Hött/Huginn á Dalvíkurvelli, fimmtudaginn 24. júní kl. 19:00.