Dalvík sigraði Augnablik í fimm marka leik

Dalvík/Reynir og Augnablik mættust í 3. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi á Dalvíkurvelli. Augnablik byrjaði af krafti og skoruðu strax á 6. mínútu og voru því komnir í 0-1 í upphafi leiks. Heimamenn voru fljótir að jafna og kom jöfnunarmarkið á 19. mínútu og það gerði markahæsti maður 3. deildar, Nökkvi Þeyr, hans 9. mark í 8 leikjum. Augnablik var hins vegar aðeins 5 mínútur að komast aftur yfir, og gerðu þeir sitt annað mark á 24. mínútu og staðan orðin 1-2. Á 39. mínútu fær Magnús Aron leikmaður Augnabliks sitt annað gula spjald og þar með útilokun frá leiknum.

Staðan var 1-2 fyrir gestina í hálfleik, en fljótlega í síðari hálfleik þá gerir Dalvík/Reynir tvær skiptingar og skilaði það fljótlega jöfnunarmarki, en að kom á 67. mínútu, og var það Angantýr Máni með sitt annað mark í sumar. Staðan orðin 2-2 og rúmar 20 mínútur eftir og heimamenn manni fleiri. Sigurmarkið kom svo á 83. mínútu og var það Þröstur Mikael sem gerði sitt annað mark í sumar, og var þetta sigurmarkið í leiknum. Í uppbótartíma misstu gestirnir annan mann út af með, en það var reynsluboltinn Jökull Elísabetarson sem hafði komið inná sem varamaður í síðari hálfleik. Góður 3-2 sigur hjá Dalvík/Reyni, og eru þeir efstir í deildinni eftir 10 umferðir með 24 stig.