Dalvík/Reynir og Selfoss mættust á Jáverk-vellinum á Selfossi í gærkvöldi í 16. umferð 2. deildar karla í knattspyrnu. Selfoss hafði tapað síðustu þremur leikjum fyrir þennan leik á meðan Dalvík hafði unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum. Bæði liðin gátu blandað sér ennfrekar í toppbaráttuna með sigri í þessum leik, þar sem mjög þéttur pakki er í toppbaráttunni í deildinni. Selfoss var í 6. sæti með 23 stig og D/R var með 24 stig í 5. sætinu. Selfoss er með vel mannað lið og í því eru tveir af markahæstu mönnum 2. deildar. Fyrri leikur liðanna fór 1-1 í vor í deildinni.

Heimamenn byrjuðu leikinn betur og komust yfir strax á 17. mínútu með marki frá Kenan Turudija. Skömmu fyrir leikhlé var Kenan Turudija aftur á ferðinni og kom heimamönnum í 2-0 og þannig var staðan í hálfleik. Þjálfari D/R gerði strax eina skiptingu í hálfleik til að reyna breyta gangi leiksins en inná kom Númi Kárason og útaf fór Pálmi Heiðmann. Þegar rúmar 20. mínútur voru liðnar af síðari hálfleik þá gerði D/R tvöfalda skiptingu þegar Alexander Ingi og Ottó Björn komu inná fyrir Viktor Daða og Gunnlaug Bjarnar. Skömmu síðar kom svo Reynir Helgi inná fyrir Steinar Loga. Þrátt fyrir þessar skiptingar þá náði D/R ekki að nýta færin og fengu á sig þriðja markið á 74. mínútu þegar Adam Örn Sveinbjörnsson gulltryggði sigur heimamanna og kom þeim í 3-0 þegar skammt var eftir.

D/R gerðu sína fimmtu skiptingu á 79. mínútu þegar Brynjar Skjóldal kom inná fyrir Jón Björgvin. Selfoss skoraði svo lokamarkið á 84. mínútu þegar Guðmundur Tyrfingsson skoraði, en það er 16 ára strákur sem hefur leikið 13 leiki í sumar og skoraði 2 mörk fyrir Selfoss. Lokatölur 4-0 og sanngjarn sigur heimamanna í þessum leik.

Dalvík/Reynir er í 6. sætinu eftir þetta tap en liðin fyrir neðan eiga leik til góða og geta komist yfir D/R í deildinni. D/R leikur næst við Völsung á Dalvíkurvelli, miðvikudaginn 21. ágúst kl. 18:00.

Selfoss vann örugglega. Mynd frá Selfoss.net.