Dalvík/Reynir mætti Hetti/Huginn á Dalvíkurvelli í 21. umferð Íslandsmótsins í 2. deild karla.  Sigur gat tryggt D/R sæti í Lengjudeildinni á næsta ári og jafntefli hefði farið langleiðina.

Það voru heimamenn sem byrjuðu vel og skoruðu strax á 4. mínútu, Þorvaldur Daði Jónsson með markið. Höttur/Huginn jafnaði tæpum fimm mínútum síðar og var staðan orðin 1-1 eftir fjöruga byrjun.

Heimamenn gerðu svo tvö mörk úr vítum með stuttu millibili um miðjan fyrir hálfleik og leiddu 3-1 í hálfleik.  Borja Laguna skoraði úr fyrra vítinu og Áki Sölvason úr því seinni.

Sigfús Gunnarsson fékk sitt annað gula spjald á 59. mínútu og spilaði D/R manni færri það sem eftir lifði leiks.

Gestirnir minnkuðu muninn á 80. mínútu og kom spenna í leikinn þegar staðan var orðin 3-2. Markið kom eftir skalla frá H/H sem endaði í Þresti Jónassyni og var það skráð sem sjálfsmark.

Dalvík/Reynir gerði svo fjórða markið í uppbótartíma En Áki Sölvason gerði sitt annað mark, og unnu D/R glæsilegan sigur 4-2 og hafa tryggt sér sæti í Lengjudeildinni að ári.