Dalvík/Reynir gerði jafntefli við ÍR

Dalvík/Reynir heimsótti ÍR í Breiðholtinu á Hertz-vellinum í gær í 2. deild karla í knattspyrnu. Liðin voru jöfn að stigum fyrir þennan leik og með jafna markatölu, bæði lið höfðu skorað 10 mörk og fengið á sig 10.

Það voru heimamenn sem tóku forystuna á 38. mínútu, en D/R voru fljótir að svara, og var það Borja Laguna sem jafnaði leikinn á 44. mínútu, en hann var í miklu stuði í þessum leik og nýtti færin vel. Staðan var 1-1 í hálfleik.

D/R átti draumabyrjun í síðari hálfleik þegar Borja Laguna skoraði strax á fyrstu mínútunni, markið skráð á 46.mínútu, og kom D/R í 1-2.  Heimamenn voru fljótir að svara og jöfnuðu leikinn fjórum mínútum síðar, staðan orðin 2-2 og 40 mínútur eftir.

Alexander Ingi Gunnþórsson nýr liðsmaður Dalvíkur/Reynis kom inná sem varamaður á 62. mínútu fyir Pálma. Á 71. mínútu gerði þjálfari D/R tvöfalda skiptingu þegar Jóhann Örn kom inná fyrir Núma Kárason og Jón Heiðar fyrir Kristján Frey.

ÍR-ingar komust svo yfir á 83. mínútu og allt stefndi í 3-2 sigur heimamanna. D/R strákarnir neituðu að gefast upp og náðu að jafna leikinn í uppbótartíma, og var það Borja Laguna sem fullkomnaði þrennuna sína í leiknum. Lokatölur 3-3.