Dalvík/Reynir og Völsungur frá Húsavík mættust á Dalvíkurvelli í dag í Lengjubikarnum. Liðin leika í B-deild í riðli 4.

Það voru gestirnir sem byrjuðu af krafti og voru komnir með tvö mörk á fyrstu 16 mínútum leiksins. Jakob Héðinn Róbertsson skoraði fyrsta markið á 6. mínútu eftir að hafa unnið boltann og leikið sig að marki, framhjá markmanni D/R og skorað í autt markið. Fyrirliði Völsunga, Arnar Pálmi Kristjánsson lét svo kné fylgja kviði og hamraði boltann í netið eftir horn á 16. mínútu og var staðan góð fyrir gestina.

Áki Sölvason minnti á sig gegn sínum gömlu félögum og minnkaði muninn 1-2 á 37. mínútu. Hálfleikstölur voru 1-2.
Völsungur gerði tvöfalda skiptingu í hálfleik en Dalvík var með óbreytt lið í upphafi síðari hálfleiks.
Dalvíkingar jöfnuðu í 2-2 úr aukaspyrnu á 52. mínútu, en það var Halldór Jóhannesson sem átti það mark. Það voru færi á báða bóga undir lok leiks en ekki tókst að knýja fram sigurvegara í þessum leik. Lokatölur voru því 2-2.