Dalvík/Reynir mætti liði Víðis frá Garði á Dalvíkurvelli í gær. Bæði liðin eru í toppbaráttunni, en fjögur lið gera tilkall til efstu sætanna. Víðir vann síðustu tvær viðureignir liðanna, en liðin hafa fylgst að í deildum síðustu fjögur árin og þekkjast ágætlega. Hjá Dalvík var Borja Laguna á bekknum, sem kom nokkuð á óvart fyrir leikinn.

Það voru heimamenn sem skoruðu fyrsta markið snemma í fyrri hálfleik þegar Þröstur Jónasson skoraði á 17. mínútu. Staðan var 1-0 í hálfleik fyrir D/R.

D/R byrjaði síðari hálfleik vel en Malakai skoraði á 59. mínútu og kom heimamönnum í 2-0 þegar rúmur hálftími var eftir af leiknum.

Þröstur Jónasson skoraði sitt annað mark skömmu síðar eða á 65. mínútu og kom Dalvík/Reyni í góða stöðu, 3-0.

Þjálfari Dalvíkur nýtti allar sýnar skiptingar í síðari hálfleik, en hann gat leyft sér að hvíla Borja Laguna allan leikinn.

Frábær sigur í toppbaráttunni, liðið er í 2. sæti með leik til góða og getur því náð toppsætinu með sigri á Kormáki/Hvöt í næsta leik, en þeir hafa tapað síðustu fjórum leikjum sínum í deildinni.