Dalvík gerði jafntefli við Einherja
Dalvík/Reynir og Einherji frá Vopnafirði kepptu á Dalvíkurvelli í kvöld í 3. deild karla, og var þetta fyrsti leikurinn í 15. umferðinni. Dalvík var á toppnum með 30 stig en Einherji var í 5 .sæti með 21 stig fyrir þennan leik og eru að reyna blanda sér í toppbaráttuna. Dalvík/Reynir vann fyrri leik liðana í sumar á Vopnafjarðarvelli örugglega, 3-0.
Dalvík/Reynir tóku forystu í leiknum á 36. mínútu með marki frá Fannari Daða Gíslasyni, hans fyrst mark í sumar og 7 markið í 30 leikjum fyrir Dalvík. Staðan var 1-0 í hálfleik fyrir heimamenn. Á 61. mínútu þá skora gestirnir jöfnunarmark, og var þar að verki Gunnlaugur Baldursson, hans 4 mark í sumar, en að auki hefur hann skorað 49 mörk í 130 leikjum fyrir Einherja. Skömmu eftir markið gerði Dalvík tvöfalda skiptingu til að freista þess að ná sigri í leiknum og komu Jóhann Örn og Gunnar Már inná fyrir Þröst og Pálma. Fleiri urðu mörkin ekki, og 1-1 niðurstaðan í þessum leik. Alls voru gefi 6 gul spjöld, þrjú á hvort lið.
Dalvík/Reynir á núna 3 leiki eftir á mótinu og er með 7 stiga forskot á KH sem á leik til góða og svo er stutt í næstu lið. Línurnar skýrast enn frekar þegar þessi umferð klárast.
Úrslitin þýða það að Einherji er núna með jafn mörg stig og KF, en KF á leik til góða gegn Ægi á Þorlákshöfn.