Dalvík/Reynir mætti Augnabliki í lokaumferðinni í 3. deild karla í knattspyrnu. D/R hafði 2ja stiga forskot á Sindra sem lék við ÍH á sama tíma, en jafnframt hafði Sindri aðeins lakari markatölu en Dalvík/Reynir. Möguleikar Sindra á efsta sætinu voru því að vinna sinn leik stórt og að D/R myndi tapa stigum.

Strákarnir í Augnablik voru komnir til að selja sig dýrt í þessum leik þrátt fyrir að vera aðeins að keppa fyrir heiðurinn. Mikið var undir hjá D/R en sigur gat gulltryggt þeim efsta sætið og bikarinn.

Það voru gestirnir sem komust óvænt yfir 30. mínútu. Heimamenn jöfnuðu á 38. mínútu með marki frá Matthew Woo Ling. Staðan var 1-1 í hálfleik. Á sama tíma var Sindri kominn í 4-2 gegn ÍH og voru búnir að jafna markatöluna gegn D/R og þurftu nú aðeins eitt mark til viðbótar ef D/R skyldi gera jafntefli.

Augnablik gerði eina skiptingu í hálfleik en D/R beið með skiptingar þar til á 70. mínútu þegar Númi Kárason kom út af og Bjarmi Óskarsson kom inná. Þjálfari Augnabliks gerði þá þrjár breytingar á skömmum tíma og var kominn með ferska menn inná völlinn.

D/R setti Viktor Daða og Jóhann Örn inná 78. mínútu fyrir Rúnar Helga og Gunnlaug Rafn.

Augnablik skoraði annað mark á 83. mínútu og komust yfir 1-2. Á sama tíma var staðan orðin 7-2 á Sindravöllum og þurfti því D/R sigur í þessum leik þegar hér var komið.

Það var ekki fyrr en í uppbótartíma sem jöfnunarmarkið kom þegar Þröstur Jónasson skoraði og breytti stöðunni í 2-2.

Dalvík þurfti eitt mark í viðbót en þrátt fyrir langan uppbótartíma á kom markið ekki og voru lokatölur í leiknum 2-2, en það dugði D/R ekki til sigurs í deildinni

D/R endaði í 2. sæti deildarinnar og leika í 2. deild karla á næsta ári.