Dagsferðir til Siglufjarðar í sumar frá Reykjavík

Flugfélag Íslands bíður í sumar upp á dagsferðir til Siglufjarðar með flugi frá Reykjavík til Akureyrar.

Siglufjörður er vinalegur bær á norðanverðum Tröllaskaga á miðju Norðurlandi. Fjörðurinn er fremur lítill en umlukinn háum og tignarlegum fjöllum. Þar er mjög góð höfn frá náttúrunnar hendi sem átti án efa stóran þátt í uppbyggingu á Siglufirði sem hófst með mikilli síldveiði úti fyrir Norðurlandi skömmu  eftir 1900. Miðin lágu vel við Siglufirði sem varð helsti síldarbærinn. Þar voru yfir 20 söltunarstöðvar þegar best lét og þar á meðal sú stærsta á landinu. Árið 1950 bjuggu um 3100 manns á Siglufirði sem var þá fimmti stærsti kaupstaður landsins. Á síldarárunum var mikið um að vera og auk heimafólks margir sem komu og unnu í törnum.

Siglfirðingar minnast þessa tímabils m.a. með glæsilegu Síldarminjasafni, stærsta sjóminja- og iðnaðarsafni landsins. Í þremur húsum er hægt að kynnast sögu síldveiða og vinnslu á silfri hafsins.

Frá Akureyri er haldið norður með vestanverðum Eyjafirði, sem er lengsti fjörður á Norðurlandi. Á leiðinni gefst tækifæri til að fræðast um sögu svæðisins og komið er við á nokkrum stöðum, m.a. Hauganesi, Dalvík og Ólafsfirði, þar sem strandmenning er rík og tengsl lands og sjávar sterk.

Héðinsfjörður, sem liggur milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, var lengi vel einangraður eyðifjörður en er nú í alfaraleið sem tengir saman þessa staði. Það gefst tækifæri til að litast aðeins um í firðinum áður en haldið er áfram til Siglufjarðar. Þar verður byrjað á að fara stuttan útsýnishring um bæinn en síðan liggur leiðin í Síldarminjasafnið og eftir það verður svæðið skoðað frekar. Áður en haldið er til baka er gert ráð fyrir hádegismat.

Verð 2012

47.920 ISK

 Innifalið:

  • Flug: Reykjavík – Akureyri – Reykjavík.
  • Flugskattar
  • Skoðunarferð með leiðsögn
  • Miði í Síldarminjasafnið

Ekki innifalið:

Veitingar

 Í boði:

  • júní – ágúst
  • Mánudaga og fimmtudaga