Dagsektir á hús á Siglufirði verði þau ekki löguð

Eftir óveðrið í Fjallabyggð í vetur kom í ljós að nokkur hús voru í slæmu ástandi og hlaust töluverð hætta á fjúkandi þakplötum og klæðningum á nokkrum húsum í miðbæ Siglufjarðar. Enn eiga nokkrir eigendur eftir að gera úrbætur á sínum húsum og hótar nú Sveitarfélagið Fjallabyggð aðgerðar fái þeir ekki tilskilin svör innan ákveðins tíma. Gert er ráð fyrir dagsektum eða framkvæmda á kostnað eigenda svari þeir ekki áskorun Fjallabyggðar.  Eigendum verður í kjölfarið gefinn stuttur frestur til að tjá sig um mögulega álagningu og fjárhæð dagsekta eða framkvæmdir á kostnað eiganda.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar metur málið þannig að nauðsynlegt sé að gengið verði frá húsinu fyrir veturinn til að ekki hljótist tjón eða skapist frekari hætta vegna þess.

Eigendur húsanna þurfa jafnframt að skila inn áætlun um viðgerðina og að gera grein fyrir því í hverju lagfæringarnar eiga að felast og hvernig öryggi verði tryggt fram til þess tíma sem framkvæmdir hefjast.