Dagdvöl aldraðra í Skagafirði 20 ára

Þann 20. nóvember næstkomandi eru 20 ár síðan Dagdvöl aldraðra í Skagafirði hóf starfsemi sína. Ráðgert er að halda upp á þessi tímamót fimmtdaginn 22. nóvember og föstudaginn 23. nóvember. Almenningi gefst þá kostur að fylgjast með og kynnast starfsemi Dagdvalar, föndurstofa yrði opin og þjónustuþegar verða við vinnu sína.

Dagdvöl aldraðra er dagþjónusta fyrir aldraða einstaklinga í Skagafirði. Dagdvölin hefur 11 rými, 20-25 einstaklingar njóta þjónustunnar. Opið er 5 daga vikunnar. Markmið starfsins er að veita hjálp til þess að hinn aldraði geti búið eins lengi á heimili sínu og kostur er en þurfi ekki að leggjast inn á sólarhringsstofnun fyrr en hann óskar þess sjálfur.

Dagdvölin er opin fimm daga vikunnar. Þjónustan nýtist bæði íbúum í dreifbýli og þéttbýli. Þjónustubíll fer alla daga um Sauðárkrók og fjóra daga um sveitina og sækir þjónustuþega.

Þar er boðið upp á:

 • félagslegan stuðning og ráðgjöf
 • eftirlit með heilsufari
 • fræðslu um atriði sem tengjast öldrun
 • aðstoð við þjálfun og athafnir daglegs lífs
 • aðstoð við persónulega umhirðu
 • þjálfun í sundlaug og tækjasal
 • tómstundastarf
 • handmennt
 • heitan mat í hádegi, kaffi og meðlæti
 • akstur heiman og heim
 • félagslega og persónulega samveru