Matreiðslumeistararnir Sigurvin Gunnarsson og Sverrir Þór Halldórsson voru á Hannes Boy og Kaffi Rauðku á Siglufirði í sumar til að smakka rétti og skrifa veitingarýni fyrir vefinn Veitingageirinn.is. Þeir voru svo án fyrirvara beðnir um að dæma í keppninni um besta síldarréttinn 2014 sem haldin var yfir Síldardagana á Siglufirði í sumar.

Hátíðin var haldin dagana 24. júlí til 4. ágúst síðastliðið sumar og er til heiðurs síldarinnar. Á sunnudeginum 3. ágúst var haldin hin árlega keppni síldaráhugamanna um hver lagaði besta réttinn úr síld.

Borð var sett út á bryggjukantinn fyrir framan við Hannes Boy og réttunum komið fyrir þar og tók dómnefnd til starfa.

Heimir Hannesson yfirmatreiðslumeistari á Hannes Boy kvað upp úrslitin sem voru:

  • 6. sætið – Alíslensk síldarsnitta
  • 5. sætið – Heitur síldarbakstur
  • 4. sætið – Síldarbollur með graslaukssósu
  • 3. sætið – Rússnenskt síldarsalat með rúgbrauði
  • 2. sætið – Síld í pylsubrauði
  • 1. sætið – Bláberjasíld með skyrsósu og rúgbrauði

Dómnefndin sagði um sigurréttinn: “Framsetning glæsileg, afbragðs gott bragð, heildarsamspil á bragði var frábært”.

Dómnefndin Vinningsrétturinn

Myndir: Veitingageirinn.is