Byggðin við Bakkaflóa

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur skipað nefnd um málefni byggðarinnar við Bakkaflóa. Verkefni nefndarinnar er að yfirfara tillögur starfshóps á vegum heimamanna og fleiri aðila um málefni byggðarinnar við Bakkaflóa og gera tillögur til ríkisstjórnar um viðbrögð stjórnvalda. Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins.

Í byrjun mars síðastliðinn skilaði starfshópur skipaður fulltrúum íbúa, sveitarfélagsins, stoðstofnana og þingmanna kjördæmisins tillögum til aðgerða sem eru til þess fallnar að styrkja stöðu byggðar á Bakkafirði og Langanesströnd. Starfshópurinn var settur á fót í framhaldi af opnum íbúafundi á staðnum og ákalli íbúa byggðarinnar um aðstoð stjórnvalda og aukið samstarf. Megin tillögur starfshópsins fela í sér að auka byggðakvóta, setja viðbótarfjármuni í samgönguáætlun, efla nærþjónustu og að byggðin við Bakkaflóa verði tekin inn í verkefnið Brothættar byggðir.

Ríkisstjórn Íslands samþykkti í kjölfarið á fundi sínum þann 15. mars að skipuð yrði nefnd með fulltrúum fimm ráðherra, þ.e. forsætisráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra. Verkefni nefndarinnar er sem áður sagði að yfirfara tillögur starfshóps um málefni byggðarinnar í Bakkaflóa, meta gildi þeirra og gagn, bæta við tillögum eftir atvikum og gera tillögur til ríkisstjórnar um viðbrögð stjórnvalda.

Í nefndinni sitja Magnús Jónsson, formaður nefndarinnar og fulltrúi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Héðinn Unnsteinsson, fulltrúi forsætisráðherra, Þórarinn Sólmundarson, fulltrúi mennta- og menningarmálaráðherra, Rebekka Hilmarsdóttir fulltrúi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fulltrúi ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Með nefndinni starfar Hólmfríður Sveinsdóttur, sérfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, auk þess sem Kristján Þ. Halldórsson, sérfræðingur hjá Byggðastofnun, er starfsmaður nefndarinnar.

Nefndin hefur þegar hafið störf og mun halda austur dagana 30. – 31. ágúst til funda með íbúum og fulltrúum sveitarstjórnar ásamt því að heimsækja vinnustaði. Gert er ráð fyrir því að nefndin ljúki störfum um miðjan október þessa árs.

Bakkafjörður Fegurð Friður

Heimild: stjornarrad.is