Byggðasafnið Hvoll á Dalvík – sumardagskrá

Byggðasafnið Hvoll á Dalvík: Sumardagskrá 2012

Safnið er opið alla daga kl. 11:00 – 18:00, 1. júní – 1. september.

Júní

17. júní – sunnudagur, kl. 14:00 Lífsdagbók ástarskálds. Ævi og ástir Páls Ólafssonar. Þórarinn Hjartarson syngur og les ljóð Páls Ólafssonar auk þess að segja sögu sem tengir ljóðin saman.
Úr verður ljóðsagan um Pál og Ragnhildi.
Ljóð Páls eru óvenjulega persónuleg, nokkurs konar dagbókarfærslur sem skrá innra líf hans jafnt sem ytri hagi. Það býður upp á þann sjaldgæfa möguleika að sviðsetja skáld. Þetta gerir Þórarinn: tekur á sig ham Páls og flytur síðan lífsdagbók hans.
Alls eru sungnir 23 söngvar eftir valinkunna lagasmiði, m.a. nokkrir spánnýir fyrir sýninguna, og lesin ljóð eru litlu færri.
Síðastliðinn vetur flutti Þórarinn þessa dagskrá á Söguloftinu í Landnámssetri, Borgarnesi. „Frásögn og ljóðlist vafin saman í eina heild eins og best gerist á Söguloftinu“ skrifaði Jón Viðar Jónsson gagnrýnandi. Aðgangseyrir

23.júní – laugardagur, kl. 20.00 fyrir utan byggðasafnið Hvol, Kristján E. Hjartarson segir sögu gamalla húsa á Dalvík. Frítt

Júlí
1.júlí – sunnudagur, kl. 14.00, Síldarstúlka fær málið. Hversdagslíf söltunarstúlku á Hjalteyri sumarið 1915. Margrét Guðmundsdóttir sagnfræðingur ætlar í erindi sínu að rjúfa skarð í þann þagnarmúr sem hlaðinn er um sögu verkakvenna. Þætti þeirra í verðmætasköpun í sjávarútvegi er sjaldan gefinn verðugur gaumur – stundum mætti jafnvel ætla að saltfiskur og söltuð síld í tunnum væru dregin úr sjónum. Síldarsöltun er iðulega kennd við ævintýri. Rómantík, söngur, dans og harmonikutónar leika þar aðalhlutverkin. Hvernig kemur sú mynd heim og saman við raunveruleika hversdagsins í vinnslu á silfri hafsins? Sögur úr síldinni eru margar – en sárafáar frásagnir kvenna hafa því miður ratað á prent. Áheyrendum verður boðið að fylgja síldarstúlku Útgerðarfélagsins Kveldúlfs í Reykjavík norður til Hjalteyrar. Hugað verður að undirbúningi hennar fyrir vertíðina og ferðalagið. Litið verður inn um gættina á verbúðum verkakvenna á Hjalteyri og brugðið upp mynd af aðbúnaði þeirra og sambúð. Kostur síldarstúlkna og vinnufatnaður verður gaumgæfur og drepið á þvotta og þrifnað. Áhugasömum hlustendum verður að sjálfsögðu boðið að slást í för með verkakonum á söltunarplanið. Dagbækur Elku Björnsdóttur verkakonu í Reykjavík eru helsti leiðarvísir ferðarinnar – en þær veita einstaka sýn á líf og strit síldarstúlkna í upphafi 20. aldar. Aðgangseyrir.


14.júlí – laugardagur kl. 14.00 Hjónin Lára Sóley Jóhannsdóttir og Hjalti Jónsson flytja og syngja fallega sumartónlist við fiðlu og gítarundirleik. Aðgangseyrir

28. júlí – laugardagur, kl. 14.00 segir Þóra Rósa Geirsdóttir frá tilurð og starfi kvenfélagsins Tilraunar í Svarfaðardal. Aðgangseyrir.

Ágúst
5. ágúst – sunnudagur , kl. 14.00, Tríóið „Tvær á palli með einum kalli“ flytur tónlist úr ýmsum áttum, tangó, lög úr bíómyndum og fleira. Edda og Helga Þórarinsdætur ásamt Kristjáni Hrannari Pálssyni. Aðgangseyrir.
9. ágúst – fimmtudagur, kl. 17.00 fyrir utan byggðasafnið Hvol, Kristján E. Hjartarsons segir sögu gamalla húsa á Dalvík. Frítt.
19. ágúst – sunnudagur, kl. 14:00 Lífsdagbók ástarskálds. Ævi og ástir Páls Ólafssonar. Þórarinn Hjartarson flytur sömu dagskrá og á 17. Júní. Aðgangseyrir


Sumarið 2012 er Byggðasafnið með litlar sýningar í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík.