Byggðarráð Skagafjarðar skorar á Reykjavíkurborg

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar vill ítreka mikilvægi neyðarbrautar Reykjavíkurflugvallar (Flugbraut 06/24) fyrir hinar dreifðu byggðir landsins. Tvö nýleg dæmi af Norðurlandi vestra, þar sem koma þurfti alvarlega slösuðum einstaklingum undir læknishendur í Reykjavík, sanna svo ekki verður um villst mikilvægi brautarinnar. Í báðum tilvikunum þurfti sjúkraflugvél Mýflugs að lenda á umræddri braut þar sem aðrar brautir voru ekki í boði.
Ákvörðun um lokun brautarinnar er ekki einkamál höfuðborgarinnar heldur málefni er varðar alla landsmenn, ekki síst íbúa landsbyggðarinnar. Í ljósi samþjöppunar í heilbrigðisþjónustu og aukinnar umferðar með fjölgun ferðamanna er ljóst að mikilvægi brautarinnar mun aðeins aukast á komandi árum.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar skorar á Reykjavíkurborg, sem höfuðborg alls landsins að standa vörð um þá mikilvægu öryggishagsmuni sem felast í því að halda flugbraut 06/24 opinni og leggi til hliðar öll áform um lokun brautarinnar.