Búið að fullfjármagna uppsetningu ILS búnaðar á Akureyrarflugvelli

Þær ánægjulegu fréttir bárust nýverið að búið sé að fullfjármagna uppsetningu ILS búnaðar sem settur verður upp á Akureyrarflugvöll fyrir aðflug úr norðri. Tafir hafa orðið á verkefninu og mun búnaðurinn ekki verða kominn í gagnið fyrir flugferðir bresku ferðaskrifstofunnar Super Break í vetur, en engu að síður skiptir þessi búnaður miklu máli fyrir markaðssetningu flugvallarins erlendis gagnvart flugfélögum sem hafa sýnt því áhuga að fljúga til Akureyrar.

Salan hjá Super Break á vetrarferðunum gengur vel og í september hófst hin eiginlega markaðssetning ferðaskrifstofunnar. Þar spilar sjónvarpsauglýsing, sem unnin var upp úr efni frá Markaðsstofunni, miklu máli en henni er sjónvarpað um allt Bretland og því mikil auglýsing sem Norðurland fær.