Bubbi Morthens: Siglufjörður er staður sem er þessi virði að sækja heim.

Bubbi hélt nýlega tónleika á Siglufirði og Dalvík, hann skrifaði þessa grein á Smuguna.is :

Við komum í öskrandi rigningu og roki. Gráar regnhryðjur börðu fjallið. Við höfðum keyrt í gegnum þrjú göng sem sannarlega hafa breytt lífi fólksins á svæðinu og það var eitthvað breytt við þorpið. Í 30 ár hef ég komið til Siglufjarðar og ég er ekki frá því að bærinn hafi fríkkað.

Staðurinn sem ég er að fara spila á heitir Kaffi Rauðka, fallegt gamalt hús sem hefur gengið í gegnum endurnýjun. Það er staðsett við smábátahöfnina. Þarna hlýtur að vera ægifagurt á lognkyrru sumarkveldi.

Það var tekið á móti okkur með litlum ljósbera í fanginu. Vertinn var ungur maður og litli ljósberinn var sonur hans. Öll húsgögnin þarna inni voru smíðuð úr gömlum við, svona smá hobbitabragur á dæminu. Ég sat uppi á háaloftinu umvafin timbri, veggir, gluggapóstar og allt úr timbri og beið eftir að klukkan yrði hálf níu.

Regnið barði húsið að utan og rokið hamaðist á glugganum. Fólkið streymdi að þrátt fyrir veðurhaminn. Ég sat í myrkrinu og hitaði fingur og rödd og salurinn var fullur af fólki. Mikið var ég glaður þegar ég gekk inn í salinn og sá að það var húsfyllir.

Í tvo tíma var algjör hlustun, ungt fólk, gamalt fólk og allt þar á milli. Dásamleg kvöldstund.

Siglufjörður er staður sem er þessi virði að sækja heim.