Breytingar í gjaldskrá Fjallabyggðar árið 2019

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt að leggja fram tillögur um breytta gjaldskrá og útsvar fyrir árið 2019 fyrir bæjarstjórn Fjallabyggðar. Í þessari tillögu er gert ráð fyrir að aukinn verði systkinaafsláttur í leikskóla Fjallabyggðar, 30% afsláttur vegna 2. barns verði 50% afsláttur og 50 % afsláttur vegna 3. barns verði 75% afsláttur.  Gert er ráð fyrir að Húsaleiga í félagslegu húsnæði í Fjallabyggð hækki um 10% þann 01.01.2019.

Þá er lagt til að Sorphirðugjöld í Fjallabyggð hækki í 44.000 kr. úr 42.000 kr.

Einnig er tillaga um að frá 1. janúar 2019 verði gjaldfrjálst fyrir öryrkja og eldri borgara 67 ára og eldri, íbúa Fjallabyggðar í sund og líkamsrækt. Þá er gert ráð fyrir að gjald fyrir skólamáltíðir í Grunnskóla Fjallabyggðar haldist óbreytt í krónum talið á milli ára.

Aðrar tillögur af breytingum verða:

Reiknað er með vísitöluhækkun upp á 3% á milli ára.
Útsvarsprósenta verði óbreytt 14,48%
Fasteignaskattsprósenta verði óbreytt, (A 0,49%, B 1,32% og C 1,65%)
Lóðarleiguprósenta verði óbreytt (A 1,90% og C 3,50%)
Sorphirðugjöld hækki í 44.000 kr. úr 42.000 kr.
Holræsa-/fráveitugjaldaprósenta lækki í 0,33% úr 0,36%.
Vatnsskattsprósenta fasteignagjalda lækki í 0,32% úr 0,35%.

Afsláttur af fasteignaskatti hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum verður að hámarki kr. 70.000 í stað kr. 65.000,-.

Ólafsfjörður. Ljósmynd: Héðinsfjörður.is /Ragnar Magnússon