Drög að frumvarpi um breytingar á lögum um póstþjónustu hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila umsögn er til og með 2. október 2022.
Í frumvarpsdrögunum eru m.a. lagðar til breytingar sem fela í sér heimild fyrir aukinni notkun bréfakassasamstæðna. Um er að ræða breytingu á 1. málslið 5. mgr. 27. gr. laganna. Ákvæðið var fyrst og fremst hugsað fyrir þéttbýli á landsbyggðinni eða dreifðari byggðum til að minnka kostnað við alþjónustu. Þannig þyrfti pósturinn aðeins að stoppa á einum stað í stað þess að keyra við í hverju húsi og setja bréf um bréfalúgu. Í kynningu á frumvarpinu á samráðsgátt segir: „Ljóst er, sé litið til framtíðar í póstþjónustu bæði hér á landi og t.d. í Noregi þá mun verða meiri notkun á bréfakassasamstæðum í framtíðinni í stað útburðar í hvert hús, meira að segja á stærri þéttbýlisstöðum. Hefur þetta sparnað í för með sér og jákvæð umhverfisáhrif.“
Einnig er lagt til í frumvarpsdrögunum að ráðherra verði veitt heimild til að innleiða framkvæmdareglugerð Evrópuþingsins og -ráðsins (ESB) 2018/1263 með reglugerð líkt og heimild hefur verið veitt með grunnreglugerð um pakkasendingar yfir landamæri. Grunnreglugerðinni er einkum ætlað að ýta undir traust neytenda á því að eiga viðskipti á netinu milli landa með aukinni söfnun og miðlun upplýsinga um pakkasendingaþjónustu. Framkvæmdarreglugerðin varðar sérstök eyðublöð sem póstrekendum af ákveðinni stærð, ber að nota. Hafa ber í huga að reglugerðin gildir aðeins yfir landamæri en ekki innanlands.