Breytingar á almenningssamgöngum í Fjallabyggð á árinu 2012
Á árinu 2012 má gera ráð fyrir töluverðum breytingum á almenningssamgöngum milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar sem og akstri til Dalvíkur og Akureyrar þar sem sveitarfélögin í Eyþingi munu væntanlega taka við því verkefni af Vegagerð ríkisins um áramót.
Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2012 er gert ráð fyrir fjármagni til gatna- og gangstétta framkvæmda og er ætlunin að setja upp biðskýli og merkja stoppistöðvar sérstaklega. Áætlað er að stoppistöðvar verði þrjár í hvorum byggðarkjarna og er gert ráð fyrir að framkvæmdum verði lokið í byrjun sumars.
Stefnt er að því að í júní verði búið að koma á reglubundnum ferðum á milli Siglufjarðar og Akureyrar með þremur ferðum á dag alla daga vikunnar nema á sunnudögum þá verður um að ræða eina ferð.
Fram að þeim tíma verða stoppistöðvar á eftirfarandi stöðum:
· Farið verður frá Ólafsfirði frá Íþróttamiðstöðinni og stoppað við gatnamót Aðalgötu/Ægisbyggðar/Ólafsvegar.
· Þegar komið verður til Ólafsfjarðar verður ekki stoppað við gatnamót Aðalgötu/Ægisbyggðar/Ólafsvegar, heldur farið beint á aðalstoppistöð, sem verður annað hvort við Menntaskólann á Tröllaskaga, Tjarnarborg eða íþróttamiðstöðina, samkvæmt akstursplani hverju sinni.
· Þegar farið verður frá Siglufirði verður farið frá Grunnskólanum við Hlíðarveg eða Ráðhústorgi (fer eftir aksturplani) og stoppað verður við gatnamót Snorragötu/Norðurtúns.
· Þegar komið verður til Siglufjarðar verður stoppað við gatnamót Norðurtúns/Hafnartúns, sé þess óskað. Svo á hefðbundnum stoppistöðum þ.e. við ráðhústorg, grunnskóla og íþróttamiðstöð, samkvæmt akstursplani hverju sinni.