Breyting á fyrirkomulagi vaktþjónustu heimilislækna hjá heilsugæslunni á Akureyri.

Heilsugæslustöðin á Akureyri hefur rekið vaktþjónustu heimilislækna á bráðamóttöku Sjúkrahúss Akureyrar (SAk) undanfarin ár. Þann 24. september verður fyrirkomulagi þjónustunnar breytt, en þá mun opin vaktþjónusta heimilislækna færast frá SAk yfir á heilsugæsluna sem er í Hafnarstræti 99. Breytingarnar eru gerðar í þeim tilgangi að skilja vaktþjónustu heimilislækna frá bráðamóttöku SAk, bæði til að auka öryggi skjólstæðinga sem og að efla almenna vaktþjónustu heimilislækna heilsugæslunnar við bæjarbúa.

Þá munu tímasetningar vaktþjónustunnar breytast, en í nýju fyrirkomulagi verður hún opin frá 14:00-18:00 alla virka daga og frá 10:00-14:00 um helgar.
„Þessi breyting er fyrst og fremst framkvæmd til að bæta öryggi og aðgengi fólks að þjónustu heilsugæslunnar.”, segir Jón Torfi Halldórsson, yfirlæknir heilsugæslunnar á Akureyri. „Breytingarnar voru unnar í þverfaglegu samstarfi eftir þarfagreiningu. Það er okkar von að með nýju fyrirkomulagi muni biðtími eftir þjónustu styttast verulega, þar sem við höfum fjölgað læknum og hjúkrunarfræðingum sem í sameiningu munu sinna þjónustunni.”

Vaktþjónusta heimilislækna við heilsugæsluna er ætluð sjúklingum sem þarfnast læknishjálpar samdægurs vegna skyndiveikinda eða sambærilegra atvika. Eitt afmarkað erindi er þannig afgreitt samkvæmt því. Ekki eru afgreidd vottorð á vakt og ekki eru gefnir út lyfseðlar á eftirritunarskyld lyf. Bráðamóttaka SAk er sérstaklega ætluð til að þjónusta fólk eftir slys eða þá sem glíma við bráð og alvarleg veikindi. Sé fólk í vafa með aðstæður getur það alltaf leitað aðstoðar í síma 1700 þar sem hjúkrunarfræðingar eru á vakt allan sólarhringinn og sinna faglegri símaráðgjöf og vegvísun í heilbrigðiskerfinu fyrir allt landið. Í neyð skal ávallt hringja í 112.

Vaktþjónusta hjúkrunarfræðinga á heilsugæslunni er opin fyrir bráðatilfelli og veikindi alla virka daga frá klukkan 8:00-10:00. Ekki eru bókaðir tímar fyrirfram á hjúkrunarvakt. Einnig eru hjúkrunarfræðingar með símaráðgjöf alla daga frá 8:00-15:00.
Aðalinngangur heilsugæslunnar og ákjósanlegri er frá Gilsbakkavegi (inngangur á 6. hæð í gegnum Krónuna). Einnig er aðgengi frá göngugötunni í Hafnarstræti (í gegnum Amaro húsið).

Heimild: Fréttatilkynning frá Heilbrigðisstofnun Norðurlands.